Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Björgvin viðskiptaráðherra kom mér á óvart!!!

Ég verð að segja að fundurinn í dag fór fram úr mínum björtustu vonum. Björgvin og ráðuneytisstjóri hans voru bæði á fundinum og sýndu þessum málum bæði áhuga og skilning. Ég byrjaði á að reyna að vera málefnaleg og hóf mál mitt á tryggingadæminu en þau bara spurðu og spurðu og það endaði með því að ég var búin að segja þeim sögu mína í grófum dráttum frá A-Ö. Þetta var bara alveg frábært og alveg eins og bloggvinur minn sagði, ég var svolítið taugaóstyrk en það fór af mér að mestu. Ég held ég hafi náð að koma flestu því á framfæri sem ég ætlaði mér, eitthvað smá sem ég  gleymdi en aðalatriðið var klárt, að þarna væri gat í kerfinu sem þyrfti að stoppa í og þau voru bæði sammála mér um það. Einhver Kjartan er sérfræðingurinn innan stofnunarinnar í tryggingamálunum og ég gat ekki skilið betur en hann yrði fenginn til að fara í þessi mál vel og vandlega. Náttúrulega of seint fyrir mig ef lögum um skyldutryggingar verði breytt eins og ég talaði um en leikurinn var líka til þess gerður að reyna á einhvern hátt að koma í veg fyrir að fleiri lentu í sömu hremmingum og ég. Þessi yfirmáta óheppni sem stekkur á okkur frá öllum hliðum þessa leiðindamáls er ekki einleikin en ég ætla ekki að gefast upp. Björgvin bað m.a.s um að fá að fylgjast með hvernig gengi og ef það stappar ekki í mann stálinu, þá heiti ég ekki Bylgja. Þannig að vonandi innan ekki alltof langs tíma verða lögin um skyldutryggingar endurskoðaðar á þann hátt að þær taki ekki bara á þegar fólk missir allt sitt í bruna, heldur líka ef svona sérstakar aðstæður koma upp á. Ég hef fulla trú á Björgvini og hans fólki að þau finni einhver úrræði og geri sitt til að vekja athygli á þeirri staðreynd að hvergi er gert ráð fyrir að myglusveppur geti gert fólk á Íslandi öreiga nákvæmlega eins og í öðrum löndum. Hafið þökk fyrir, Björgvin og Áslaug.

Stefnumót við viðskiptaráðherra n.k. miðvikudag!!!

takktakk

Ákvað það fyrir helgi þegar Birkir J. bjargvættur hringdi og lét mig vita af samskiptum sínum við viðskiptaráðherra varðandi okkar mál að bíða bara og sjá til. Ekki svekkja mig á því að sitja allan daginn og bíða eftir símtali sem e.t.v. kæmi svo aldrei. Satt best að segja þá átti ég alveg eins von á því að þetta símtal kæmi aldrei þar eð það er mín reynsla af því að reyna að ná í ráðamenn okkar fámennu þjóðar. Nei, þetta er ekki rétt hjá mér, hafa skal það sem sannara reynist. VAR reynsla mín allt þar til ég náði sambandi við ritara Jóhönnu Sigurðar. og svo Birkir að sjálfsögðu sem upp á sitt einsdæmi hafi samband við mig. En símtalið ER komið og kl. 10 núna á miðvikudaginn þarf mín að mæta niður á Sölvhólsgötu. Úff, ekki uppáhaldið mitt að rata í Reykjavík. Er áttavillt með eindæmum. Ruglast á hringtorgum og annað álíka fáránlegt. En þekki eldri hlutann sæmilega síðan ég var í Versló í gamla daga og treysti á að það dugi mér og svo er það bara símaskráin. Fækkar ört kortasíðunum í henni, ríf þær alltaf úr.  

En nú er bara að vakna snemma á miðvikudagsmorguninn, spartla á sér andlitið og vera vel undirbúin. Ef einhver skyldi vera að undra sig á því af hverju ég vildi fá að hitta viðskiptaráðherra þá er það vegna þess að tryggingafélögin heyra undir hann eða lög um tryggingafélög. Er að kanna núna undir hvern skipulags-og byggingarlög heyra og lög um fasteignakaup og fasteignasala. Það er viss ástæða fyrir því sem ég ætla ekki að tjá mig um að sinni. En eftir að hafa fengið ný gögn í hendur, sem ég var búin að leita að ansi lengi þá hafa ýmsar forsendur breyst og ég því ákveðið að fá mér annan lögfræðing, (alltaf að fá annað álit, er það ekki í bíómyndunum)? Ég bara get ekki kyngt því þegjandi og hljóðalaust að réttarkerfið okkar sé svona ósanngjarnt, verð að ganga úr skugga um það sjálf og skoða allar leiðir.

Nú er bara að reyna að vera málefnaleg á miðvikudaginn og vaða ekki úr einu í annað. Verður kannski svolítið erfitt þegar manni liggur svona mikið á hjarta. Veit heldur ekkert hvað ég fæ langan tíma með Björgvini en ég met það mikils að hann skuli gefa sér tíma til að hitta myglusveppakerlinguna mig og ætla þess vegna að standa mig.


Spaugstofumenn sýna enn og aftur snilldartakta

 

a_political_cartoonHeld að alþingi ætti að leiða í lög að áhöfnin á þjóðarskútunni verði skyldug til að horfa á spaugstofuna á laugardagskvöldum. Glöð myndi ég greiða laun þeirra við áhorfið það. Enn einu sinni tókst þeim spaugstofumönnum á sinn einstaka hátt að draga saman og gera hæfilega mikið grín að ástandinu í þjóðfélaginu þessa dagana. Björgvin Franz var svo rjóminn á kökuna í hverju gervinu á fætur öðru eins og honum einum er lagið. Það þarf einstaka hæfileika til að gera eins alvarlega hluti jafnfyndna eins og þeim tókst í gær að gera og í leiðinni halda manni við efnið að það sé eitthvað mikið að. Okkur Íslendingum hættir nefnilega til að gleyma, það er svo helvíti hentug leið til að forðast það að gera eitthvað sjálfur í málunum. Gott að þykjast bara ekki muna og láta aðra um að vinna vinnuna. Hversu lengi ætla Reykvíkingar t.d. að horfa í hina áttina varðandi stjórnunina á höfuðborginni okkar í von um að hlutirnir leysist án þess að þeir þurfi að hafa eitthvað fyrir því. Það er löngu orðið tímabært að þeir sem þykjast vera að stjórna borginni viðurkenni fyrir sjálfum sér og öðrum að þeir hafi reist sér hurðarás um öxl og fari og finni sér starf sem hæfir þeirra kunnáttu. Kjartan, sagnfræðingur gæti kennt mannkynssögu, Gísli getur farið í sjónvarpið og brosað þar sínu sakleysilega brosi framan í landsmenn. Það virkaði þar en því miður, Gísli minn, þá virkar það ekki í borgarstjórn. Vilhjálmur, vilt þú ekki bara skella þér á eftirlaun, Ólafur gæti stundað huglækningar. Þessir fjórir sérstaklega finnst mér að ættu að láta sig hverfa, leyfið Hönnu Birnu, Júlíusi og þeim sem eitthvað hafa í kollinum um stjórnunarhætti að sanna sig. Þau gætu þá fengið til  liðs við sig fólk sem veit hvað það er að gera og hugsar ekki bara um rassinn á sjálfum sér. Takið Björn Inga til fyrirmyndar og látið ykkur hverfa ef þið getið ekki farið eftir litlu gullkorni úr Dýrunum í Hálsaskógi. ,,Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir".

Enn aftur að spaugstofunni. Múmíur sem hagfræðingar Seðlabankans, Bónus grísinn eina sem unnið gat á greifanum, snilld, snilld og aftur snilld. Áfram svona Spaugstofumenn.

Varð að skella þessu myndbandi hérna inn, lýsandi fyrir????

http://kvikmynd.is/video.asp?land=&offset=0&ba=leita&leit=gíraffi%20í%20kviksyndi&id=2711


Aldrei verð ég jafnaðarkvenmaður

Nú er endanlega búið að sannfæra mig um að ég er eins ójöfn og nokkur getur orðið og er algerlega fullkomnlega sátt við mínar ójöfnur. Bæði þessar utanáliggjandi og óstraujaðar skoðanir mínar. Ekki er ég örvhent og/eða Sick  svo þá er búið að útiloka flokkinn sem ber  það ágæta nafn. En ég er búin að komast að því, komin hátt á fimmtugsaldurinn að ég hef skoðanir á ýmsu sem ég vissi ekki  að ég hefði skoðanir á eða alltént tjáði mig lítið um. Eins og augljóst er á þessari síðu þá hef ég sterkar skoðanir á vegakerfinu og samgöngum. Vil að breyting verði á hugsunarhætti gagnvart innflytjendum og andúð í þeirra garð. Ég styð vörubílstjóra heilshugar í þeirra baráttu sem ásamt stórhug íslenskra eignamanna sýnir að ég er hrifin af einstaklingsframtaki og er það  helsta ástæðan fyrir þessum hugleiðingum nú. Eftirfarandi athugasemd sem ég fékk á bloggið mitt fer bara ekki úr hausnum á mér svo  fáránleg finnst mér hún vera og má því til með að deila henni með ykkur og ausa aðeins bát að nafni Bylgja.

Tilvitnun hefst:

,,Auðvitað eiga ekki að þurfa að vera styrktarfélög háð duttlungum einhverra gjafara hvort félagið lifi eða deyi. Ríkið á að sjá til þess að sjúkrahús séu fullmönnuð og búin bestu tækjum. Góðgerðarfélög eiga að vera óþörf. Skattar eiga að vera svo háir að hægt sé að standa undir öllu þessu og ölmusugjafir séu óþarfar. Það er mín skoðun og fleiri jafnaðarmanna. :)"

Tilvitnun lýkur.

Uhummhemm, hóst hóst. Finnst engum nema mér ofangreind fullyrðing sýna lítilsvirðingu í garð þeirra sem láta sér annt um náungann og hafa helgað líf sitt því að hjálpa öðrum. Kvenfélögin, Kiwanis, Lions, mæðrastyrksnefnd. Skattar svo háir að þeir standi undir...  ...ölmusugjafir óþarfar. Það búa hér 300.000 manns og það eru takmörk fyrir því hversu langt er hægt að ganga í að skattpína þessar fáu hræður. Á stöðum eins og t.d. Siglufirði fer hlutfall þeirra sem borgar skatta sífellt lækkandi vegna óhagstæðrar aldursskiptingar. Að tala um gjafir fólks og fyrirtækja til félaga eins og fyrir langveik börn og MND félagsins sem einhverja duttlunga. Hvað með Vildarbörn er það líka óþörf ölmusugjöf, á bara ríkið að borga. Víða um heim eru bæði skólar og heilu deildirnar á sjúkrahúsunum reknar með  frjálsum framlögum sem er þörf viðbót við það sem þeir fá frá ríkinu og nýtist til að renna enn styrkari stoðum undir viðkomandi rekstur. Af hverju má ekki gera það hér. Við erum ríkið, peningarnar sem þeir nota eru okkar og forræðishyggjan sem felst í þessu finnst mér með eindæmum.  Við erum að borga fyrir tækin og tólin, menntun barnanna okkar með því að borga skatta. Af hverju mega þeir sem geta ekki borga eitthvað umfram á þennan máta. Þarf ríkið endilega að ráðstafa hverri krónu fyrir okkur, af hverju megum við ekki gera það sjálf. Hvernig ætti Hofsós t.d. að hafa efni á því að byggja jafn sjálfsagðan hlut og sundlaug fyrir íbúa sína. Það er alltaf gengið að þess konar sem vísu á höfuðborgarsvæðinu  þar sem hægt er að velja úr sundlaugum af því að þar standa 200.000 manns undir rekstri borgarinnar. Ekki 1000 eða 300 eins og svo víða úti á landi. Hafið mína þökk þeir sem leggja sitt af mörkum af fúsum og frjálsum vilja. Hafið mína þökk góðgerðarsamtök um land allt. Björgunarsveitir, líknarfélög og allir þeir sem byggja tilveru sína á ,,duttlungarfullum" einstaklingum og fyrirtækjum.


Bréfið mitt í Mogganum - Engin viðbrögð

Jæja, nú er kominn fimmtudagur og enn hef ég engin svör fengið við opna bréfinu mínu til Guðlaugs Þórs og Þórunnar Sveinbjarnar og birtist í Mogganum sl. þriðjudag. Kannski eru þau bara svona lengi að lesa eða eitthvað. Get ekki annað en velt fyrir mér hvort viðbrögð þeirra við bréfinu mínu hefðu verið önnur og meiri ef kjósa ætti til Alþingis þetta árið. Bíð eftir og hreinlega geri heimtingu til að stjórnvöld sjái nú sóma sinn í að fara að skoða þessi mál af einhverri alvöru og jafnvel breyta lögum um skyldutryggingar þannig að þær dekki ekki bara ef hús eyðileggjast af völdum bruna. Svo endilega elskurnar mínar, ef þið rekist á þau, þá endilega látið þau vita að ég sé að bíða eftir einhverjum viðbrögðum eða svörum frá þeim. Bara hringja í 118 ef ykkur vantar símanúmerið mitt, Guðlaugur og Þórunn. Júhú, hvar eruð þið????

Og það var rúntað.... ...á vörubílnum!!!

Gleðilegan páskadag landsmenn allir nær og fjær. Grin Maðurinn minn hafði í tvo daga talað um að bjóða mér í bíltúr og þar sem ég þekki mitt heimafólk, þá bara beið ég þolinmóð, vissi sem var að af rúntinum kæmi. Er náttúrulega búinn að vera að vinna eins og brjálæðingur í "#$%&/&$#" grunninum. En í gærkvöld var komið að bíltúrnum og þið getið ímyndað ykkur upplitið á mér þegar ég kom út og sá hvert farartækið var. Gamli Volvo-vörubíllinn sem gríðarlegum tíma hefur verið eytt í að gera sæmilega ökufæran. Já, það þurfti nefnilega að sækja litaða olíu á tunnu niðrá Skaga, þar sem grafan sem hann notar í grunninum var orðin olíulaus. Hundarnir fengu að koma með og allt í lukkunnar velstandi..... þar til við komum niður á veg. Hamingjan hjálpi mér, vissi að vegurinn væri lélegur en að þurfa að keyra hann á vörubíl, úff. Mikið vorkenndi ég þeim vörubílstjórum sem þurfa að hossast þetta vegskrifli, dag eftir dag til að komast í efnisnámurnar sem hér eru. Og ekki bara eina ferð á dag heldur ferð eftir ferð frá morgni og fram á kvöld. Hljóta að vera vel föst í þeim nýrun. Af hverju í ósköpunum sér Vegagerðin ekkí sóma sinn í því að gera þennan veg þannig úr garði að hann geti þjónað sínum megintilgangi sem er aðgangur að áðurnefndum námum. Það segir sig sjálft að vegur sem nær eingöngu er notaður af stórum og þungum vörubílum þarf að vera sérstaklega sterkbyggður. Þýðir ekkert að hafa einhverja drullu sem burðarlag undir veg sem þennan, það sér hver heilvita maður. Sveitabærinn sem ég bý á nú er eini bærinn sem er staðsettur þannig að við heimilisfólkið verðum að nota þennan veg til að komast niður á þjóðveg, annars eru þetta eiginlega bara vörubílar sem um hann fara og auðvitað á að hanna veginn út frá því. Er orðin hundfúl yfir að hossast þennan drulluslóða og ef kvartað er við vegagerðina þá senda þeir í mesta lagi hefil til að slétta úr verstu öldunum og fylla í stærstu holurnar, viðgerð sem endist í mesta lagi tvo daga. Meira að segja þegar rigningarnar gerði eftir áramótin þá varð vegurinn svo hrikalegur að vörubílarnir neyddust til að keyra að námunum hinum megin frá og eyðilögðu þar með þann hluta vegarins einnig. Það var lausnin sem þeir fengu frá Vegagerðinni þegar vegurinn Akranesmegin var orðinn ófær vegna þess að hann var notaður við aðstæður sem hann engan veginn þoldi. Engar öxulþungatakmarkanir ekki neitt, bara keyrt þar til vegurinn var ónýtur. Ég er ekki að ásaka bílstjórana, síður en svo. Þeir eru bara að vinna vinnuna sína og er boðið upp á vinnuaðstæður sem eru til háborinnar skammar. En þeir mættu samt alveg hætta að henda kaffiglösunum sínum út um gluggann.Tounge Bannað að verða svona af páskaeggjaáti.Sick


Um bloggið

Bylgja Hafþórsdóttir

Höfundur

Bylgja Hafþórsdóttir
Bylgja Hafþórsdóttir

Er bara ég sjálf. Eineggja tvíburi og stolt af því. Á einnig 5 yndislega yngri bræður.

Nýjustu myndir

  • thorri
  • thootab2
  • thorrab
  • onnur
  • egoghronn
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Bækur

Bókalisti

Er alæta á bækur nema ástarsögur

  • David Eddings: Belgariad- Sería--Malloreon-Sería--The Elenium
    Er búin að lesa þessar þrjár seríur eftir hann og fannst þær allar skemmtilegar. Svo eru líka til stakar bækur um tvær af aðalhetjunum. Belgarath galdrakarl og Polgöru galdrakvendi.
    ****
  • Tobias S.Buckell: Crystal Rain
    Hrikalega skemmtileg spacefantasía, var smástund að átta mig á að hún gerist á annarri plánetu þar sem heiminum er svo snilldarlega lýst að hann hljómar ofur eðlilega.
    ****
  • James Rollins: M.a. Map of Bones-Black Order-Judas Strain og Sandstorn
    Hef virkilega gaman af bókunum hans um Sigma Force gengið, þar sem viðfangsefnið er ætíð eitthvað á trúarlegum eða sögulegum nótum. Rosa spennandi.
  • Anthony Horowitz: Ravens Gate-Evil Star-Night Rise
    Frábær sería sem ég gat ekki slitið mig frá. 1.bókin var þýdd á íslensku nú fyrir jólin og heitir Gátt hrafnsins.
    *****
  • Michael Baigent-Richard Leigh-Henry Lincoln: Holy Blood-Holy Grail
    Elska svona bækur
    *****
  • Angie Sage: Magyk og Flyte
    Frábærar bækur um galdrastrákinn Septimus Heap. Held að þriðja bókin komi út í sumar
    ****
  • Robert Jordan: Wheel of Time
    Heljarlöng sería, alla vega komnar 12 bækur, ekki búin að lesa þær allar, kaupi þær í slumpum.
    ****
  • Sam Bourne: The Righteous Men
    Önnur söguleg skáldsaga um eitthvað trúarlegt. Spennandi bók.
    ****
  • Dan Burstein og Arne De Keijzer: The secrets of Maria Magdalena
    Ótrúlega fróðleg bók. Les allt sem ég kemst yfir um Maríu Magdalenu.
    *****
  • Scott Lynch: The Lies of Locke Lamora
    Frábærar bækur um meistarþjófinn Locke og kumpána hans. Bók nr. 2 heitir Red Seas under Red Skies.
  • Naomi Novik: His Majestys Dragon
    Sería um drekann Temeraire. Búin að lesa nr 2 og 3 einnig, er að bíða eftir að nr. 4 komi í kilju.
    *****
  • Roderick Gordon & Brian Williams: TUNNELS
    Einnig bók um heim sem ekki er til.
    ****
  • Steve Berry: The Templar Legacy
    Les mikið af svona bókum, skáldsögur sem eiga sér stað í sögulegum raunveruleika.
    ****
  • China Miewille: UNLUNDON
    Frábær um aðra London í samsíða vídd við hina.
    ****
  • Neil Gaiman: Neverwhere
    Allir að lesa þessa bók.
    *****
  • Neil Gaiman: Stardust
    Hafði lesið bókina áður en myndin kom. Elska bækurnar hans.
    ****

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 145518

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband