Að þjást af fortíðarþráhyggju???

Ég sit við stofugluggann heima hjá mömmu, með tölvuna og útsýnið er yndislegt. Allt hvítt af snjó og stöku hríðarkorn liðast niður af himnum og bætist í hóp þeirra sem fyrir eru. Fjörðurinn spegilsléttur og rétt í þessu var kona með hund að ganga framhjá. Smáfuglarnir eru mættir í morgunmat í húsið sitt, sem mamma og Jón eru hér með fyrir ofan, og skrækja ákaft. Sem áhorfandi út um glugga snemma að morgni þá getur maður ekki annað en glaðst og dáðst af Siglufirði. Mjölhúsið, gamla Siglósíld, loðnuverksmiðjan allt er þetta enn á sínum stað og ber skýran vott um fyrrum voldugan og stórhuga Sigllufjörð. Héðan sé ég ekki frystihúsin eða hafnarbryggjuna þar sem afi minn stjórnaði "Stúurunum" af sinni alkunnu ákveðni til fjölda ára. Það var þegar enn lönduðu togarar á Siglufirði. Nú er hún Snorrabúð stekkur segir einhvers staðar og það á að vissu leyti einnig um yndislega Siglufjörðinn minn. Allar þessar voldugu byggingar standa nú að mestu auðar og ónotaðar og þjóna þeim tilgangi einum að minna á forna frægð. Í dag ætla ég að fara og kíkja á kirkjuna sem er enn eitt dæmið um stórhug þeirra sem byggðu upp Siglufjörð á sínum tíma. Hún gnæfir yfir bæinn í öllu sínu veldi, glæsileg bygging sem allir Siglfirðingar mega vera stoltir af. Ég vildi svo innilega hafa tök á því að búa hérna ennþá og veit að svo er um fleiri af mínu fólki. Finnst ég enn vera að koma heim þegar ég loks sé Strákagöngunum bregða fyrir og hjartað tekur kipp. Siglufjörður er og verður bærinn minn.

Siglufjörður, hér kem ég!!!

Ef maður gefur sér ekki tíma til að hlaða batteríin endar það bara á einn veg þannig að.....

.... ég er farin til Siglufjarðar í afslöppun hjá mömmu. Er komin hátt á fimmtugsaldur en samt er alltaf best að skríða til hennar þegar orkan er búin. Svo í gær hringdi ég og fékk frí fyrir fermingarbarnið mitt í skólanum út þessa viku, redaði pössun fyrir hundana , og nú skal haldið norður á bóginn. Ætla að vera fram á föstudag og ekki gera neitt nema það sem mér finnst skemmtilegt. Göngutúrar framundan, heimsækja vini og ættingja og bara chilla. Síðustu vikur hafa verið viðburðaríkar svo ekki sé meira sagt og  ég er hlaupin. Fermingin gekk frábærlega og er ég nú sú eina af systkinunum sem er búin að ferma öll börnin. Hí hí. Allir voru boðnir og búnir til að hjálpa til og ein bróðurdóttirin sá til þess að allt gekk eins og smurt í veislunni. Algjör hetja, vann á við fjóra. En er búin að setja inn nokkrar myndir sem ég fékk sendar frá tengdamömmu. Eins og mín er von og vísa þá finn ég ekki myndavélina, nú þegar ég ætlaði að demba inn slatta af myndum. En það kemur bara síðar.


Neanderdalsmaður í eldhúsinu mínu !!!

 

 Fermingin hans alex + meira 087

Jæja, kæru bloggvinir þá er stóri dagurinn á morgun. Ferming örverpisins og ég hlakka mikið til að sjá hana tekna í fullorðinna manna tölu, eins og sagt var í gamla daga. Litla barnið mitt er orðið 14 ára og sjálf átti ég 30 ára fermingarafmæli í dögunum. ÞRJÁTÍU ÁR, nei, það getur ekki verið, er ég orðin svona gömul. En þegar við mæðgur vöknuðum í gærmorgun þá tók nýtt andlit á móti okkur í eldhúsinu og ég má tíl með að sýna ykkur hver það var. Tounge NEANDERDALSPÖNNUMAÐURINN MIKLI!!


Myglusveppur ER hættulegur, sérstaklega börnum.

Hvað er eiginlega í gangi í þessu þjóðfélagi. Varð svo reið þegar ég sá þessa frétt og fann svo innilega til með þeim óheppnu fjölskyldum sem fluttu í námsmannaíbúðirnar í góðri trú. Það virðist enginn taka þessi mál alvarlega sem einhver áhrif hafa eða geta haft á hvernig litið er á eða brugðist við myglusvepp hér á landi. Í okkar nútímalega þjóðfélagi er enn strútahátturinn hafður á, hausnum stungið í sandinn og sannarlega ekkert gert til að byrgja brunninn fyrr en allavega tugir eru dottnir ofan í hann eins og svo oft áður. Íslenskir ráðamenn heilbrigðiskerfisins, sérstaklega, verða að fara að horfast í augu við þennan vágest, verða sér úti um upplýsingar og skoða þær rannsóknir sem hafa verið gerðar á þessum fjanda. Þeir geta ekki lengur boðið börnunum okkar upp á að eiga það á hættu að ónæmiskerfi þeirra verði fyrir varanlegum skaða og dæma þau til að vera sjúklinga alla sína tíð. Skora hér með á Guðlaug Þór, bæði sem heilbrigðisráðherra og faðir,  að fara að opna augun og skoða þessi mál af jafn mikilli alvöru og þau þarfnast.
mbl.is Börnin veikjast vegna myglusvepps
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjargvættur bankar upp á..............

Í gærkvöld fékk ég heimsókn sem ef til vill væri ekki í frásögur færandi nema að gesturinn var kona sem ég þekki varla neitt. Yndisleg kona sem upp á sitt einsdæmi stofnaði handa  okkur reikning í Búnaðarbankanum og er búin að keyra um alla Hvalfjarðarsveitina, sem nær yfir geysistórt svæði, og safna undirskriftum held ég bara næstum allra í sveitinni. Allir eru boðnir og búnir til að aðstoða okkur og gaman þætti imér að vita hversu mikið af tíma sínum hún hefur gefið okkur og allt bensínið. En sem sagt í gær bankaði hún upp á til að færa okkur afraksturinn og svei mér, ég ætlaði ekki að þora að standa upp og opna og ég var svo stjörf að ég bauð henni ekki einu sinni inn. Þarna stóð ég í anddyrinu og hún líka og svo bara byrjuðu tárin að renna, ég sem var svo ákveðin í að láta það ekki gerast. Fékk ekki alveg jafn slæmt grátkast og þegar kvenfélagskonurnar bönkuðu upp á fyrir jólin og færðu okkur 500.000 kr. sem ég vissi alls ekki neitt um og átti enga von á en gat samt ekki ráðið við þetta. Reyndi að fela það með því að taka utan um hana og skildi þannig slatta af tárum eftir á kápunni hennar, sorry. Þetta er bara svo yfirþyrmandi tilfinning sem maður upplifir við að finna svona sterkan náungakærleik og fá hann beint í æð. Heilar fimm A4 blaðsíður, þéttskrifaðar nöfnum fólks sem er reiðubúið til að styrkja okkur fjárhagslega, kom hún með og dóttirin lét ekki laust né fast fyrr en hún fékk að reikna saman heildarupphæðina á blöðunum. Eiginmaðurinn kom heim skömmu síðar en þá hafði ég komist aðeins til sjálfs míns og við sátum inni í eldhúsi að spjalla. Og minn maður verður nú ekki oft orðlaus en þarna vissi hann bara ekkert hvernig hann átti að vera þegar hann sá hver komin var. Elsku S, veit ekki hvort hún vill láta nefna sig á nafn, þú ert frábær og ég þakka þér enn og aftur. Og elskulegu sveitungar, orð fá ekki lýst þakklæti okkar en samt Takk, takk, takk. Það er yndislegt að búa í Hvalfjarðarsveit og ef ég get einhvern tíma á einhvern hátt endurgoldið ykkur hjálpina þá geri ég það.

Söfnunarreikningurinn kominn inn á síðuna mína.

Þar sem ég hef fengið talsverðar ákúrur fyrir að birta ekki númer söfnunarreikningsins sem góðhjartað fólk kom af stað fyrir okkur þá hef ég nú birt nauðsynlegar upplýsingar sem "efstu mynd" í myndaglugganum á síðunni minni. Hárrétt hjá þeim sem hafa sett ofan í við mig að annað sé bara virðingarleysi fyrir þá sem vilja okkur vel. Svo enn einu sinni kyngi ég mínu sjálfsbjargarviðleitnisstolti og sem sagt það er komið. Nú þegar hafa safnast 200.000 kr inn á títtnefndan reikning og er það yndislegt að sjá.


Úrskurðarnefnd segir líka NEI við MYGLUSVEPP

Jæja, þá er okkar mál búið að fara allan hringinn hjá tryggingunum. Fengum risaumslag merkt fjármálaeftirlitinu í gær, umslag sem innihélt það sem við vissulega bjuggumst við. NEITUN. Svo þar höfum við  það, tryggingafélagið okkar er á engan hátt bótaskylt. Fasteignatryggingin til einskis, innbústryggingin til einskis. Skyldutryggingin nær ekki yfir svona tjón heldur, hefði átt að kveikja í helv. kofanum. Hvar er jafnræðisreglan í svona tilfellum, sömu aðstæður eiga að fá sömu málsmeðferð, segir í henni. Greinilega ekki í mínu tilfelli. Á enga peninga til að spandera í málsókn svo ég er lens, segi pass. Ætla bara að fara að einbeita mér að fermingarundirbúningi og ferma dótturina með stæl um næstu helgi. Er hvort sem er farin á hausinn og alveg eins gott að gera það með glans. Svo bloggvinir góðir og aðrir, veit ekki hvað ég kem til með að gefa mér mikinn tíma til að blogga þessa vikuna en ég er samt ekki farin. Nú er bara að fara og hringja og panta viðtöl hjá ráðamönnum og skella sér í þessi mál af enn meiri krafti.

Myndband af Discovery um Myglusvepp

Fann þetta myndband inni á bloggsíðu hjá manni sem kallar sig Ragga Sig. og ég bara mátti til með að gerast þjófótt og setja það hér inn á síðuna mína. Er stutt en segir samt sem segja þarf.

Linkurinn er : http://dsc.discovery.com/video/player.html?bctid=236097548


Útvarp Saga! Takk fyrir hjálpina í baráttunni við myglusveppinn.

Útvarp Saga á heiður skilinn. Þeir sáu ástæðu til að taka myglusvepp fyrir í þætti sínum "Rödd Alþýðunnar" nú í morgun og sýndu með því að einhvers staðar eru einhverjir sem taka þessi mál af jafn mikilli alvöru og þau þarfnast. Var furðu róleg í viðtalinu miðað við stressið sem á undan fylgdi og held ég hafi bara komist sæmilega frá þessu. Ég ætla svo innilega að vona að þetta framtak þeirra hafi náð að vekja einhverja til vitundar og umhugsunar um þennan vanda og að einhversstaðar séu einhverjir sem vilja láta sig þessi mál varða, hvort sem það er hjá embættismönnum þessarar þjóðar, forsvarsmönnum tryggingafélaganna eða bara hjá þjóðinni almennt. Þeir vita það sem þekkja mig að ég er ekki þannig gerð að ég hlaupi með mín mál í fjölmiðla og bréf mitt til Guðlaugs Þórs og Þórunnar Sveinbjarnar, sem birtist í Morgunblaðinu á dögunum, var alger þrautalending hjá mér til að reyna að ná eyrum einhverra sem fá einhverju ráðið. Þar til mér datt í hug að fara hreinlega að blogga um þessi mál. Og þvílík himnasending sem bloggið er, ja eða frekar þeir sem sáu ástæðu til að lesa þessi skrif mín. En ég fer með glöðu geði á heimsenda til að opna umræðuna um myglusvepp og öll þau viðtöl sem þarf. Og ég ætla að halda ótrauð áfram. Það er örugglega fullt af húsum sem er með svona skriðkjallara eins og mitt hús var. Eða dren sem er vitlaust lagt. Ég sá það svo skýrt eftir að við fluttum út úr húsinu hversu fljótt þessi fjandi getur hreiðrað um sig ef hann er látinn óáreittur. Baðherbergið til að mynda var fljótlega orðið morandi. Svo þrífa þrífa þrífa, passið gluggana, fljótt að myndast í þeim á okkar misheita landi. Fylgist með stöðum sem ekki eru í augsýn dags daglega. Ekki gera sömu mistök og ég.


Myglusveppur virðist ekki til hjá íslenskum ráðamönnum eða tryggingafélögunum!

Sá fyrirspurn áðan inni á athugasemdunum hjá mér sem fékk mig til að hugsa um allt það sem ég er búin að reyna til að fá einhverstaðar einhverja lausn okkar mála með húsið. Og að ég hef lítið minnst á hversu mikill léttir það var að fá loksins að vita hvað væri að mér. Þakka guði fyrir fyrirtæki Sylgju og Pálma, Húsum og heilsu, fyrir að vera til. Annars væri ég örugglega ennþá fárveik á Myglumelnum hafandi ekki hugmynd um af hverju. Þetta var orðið gríðarlega lýjandi ástand og mikið álag á allt og alla í kringum mig. Samviskubit kvaldi mig sífellt fyrir að vera svona mikill aumingi, ég sem hafði alltaf verið frísk og spræk og full af orku var nú orðin gangandi brak og fannst ég vera byrði á öllum. Ég var sífellt að rembast við að vera hressari en ég var og gera hluti sem ég réð ekkert við þar til ég gafst upp á því líka. Það er ekki gaman að kvíða því að vakna á morgnana til að sjá hvort dagurinn í dag yrði góður eða slæmur. Ég var lögð inn á sjúkrahús í nokkra daga því læknarnir vildu fylgjast með mér og að sjálfsögðu byrjaði ég að lagast, ekki lengur í húsinu en samt tengdi enginn, ekki einu sinni ég, þetta nokkru sinni eða á nokkurn hátt við húsið. Og að vera að fá heilsuna aftur, að verða gamla ég, það er yndislegt og algerlega ómetanlegt. En svo þegar við fórum að athuga möguleika fólks í okkar stöðu, þá kom enn eitt kjaftshöggið. Fórum fyrst í tryggingarnar-NEI-ekki einu sinni innbúið. Viðlagasjóður-NEI-ekki náttúruhamfarir. Bjargráðasjóður-NEI-Hættir öllu slíku. Og samkvæmt áliti lögfræðingsins okkar: Fasteignasalinn-NEI. Sveitarfélagið(byggingafulltrúi)-NEI. Húsbyggjandi-NEI. Seljandinn-EF TIL VILL EN HÉLT ÞAÐ YRÐI VONLAUST. Svo ef einhver getur bent okkur á einhverja leið sem okkur hefur yfirsést þá please, látið mig vita.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bylgja Hafþórsdóttir

Höfundur

Bylgja Hafþórsdóttir
Bylgja Hafþórsdóttir

Er bara ég sjálf. Eineggja tvíburi og stolt af því. Á einnig 5 yndislega yngri bræður.

Nýjustu myndir

  • thorri
  • thootab2
  • thorrab
  • onnur
  • egoghronn
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Bækur

Bókalisti

Er alæta á bækur nema ástarsögur

  • David Eddings: Belgariad- Sería--Malloreon-Sería--The Elenium
    Er búin að lesa þessar þrjár seríur eftir hann og fannst þær allar skemmtilegar. Svo eru líka til stakar bækur um tvær af aðalhetjunum. Belgarath galdrakarl og Polgöru galdrakvendi.
    ****
  • Tobias S.Buckell: Crystal Rain
    Hrikalega skemmtileg spacefantasía, var smástund að átta mig á að hún gerist á annarri plánetu þar sem heiminum er svo snilldarlega lýst að hann hljómar ofur eðlilega.
    ****
  • James Rollins: M.a. Map of Bones-Black Order-Judas Strain og Sandstorn
    Hef virkilega gaman af bókunum hans um Sigma Force gengið, þar sem viðfangsefnið er ætíð eitthvað á trúarlegum eða sögulegum nótum. Rosa spennandi.
  • Anthony Horowitz: Ravens Gate-Evil Star-Night Rise
    Frábær sería sem ég gat ekki slitið mig frá. 1.bókin var þýdd á íslensku nú fyrir jólin og heitir Gátt hrafnsins.
    *****
  • Michael Baigent-Richard Leigh-Henry Lincoln: Holy Blood-Holy Grail
    Elska svona bækur
    *****
  • Angie Sage: Magyk og Flyte
    Frábærar bækur um galdrastrákinn Septimus Heap. Held að þriðja bókin komi út í sumar
    ****
  • Robert Jordan: Wheel of Time
    Heljarlöng sería, alla vega komnar 12 bækur, ekki búin að lesa þær allar, kaupi þær í slumpum.
    ****
  • Sam Bourne: The Righteous Men
    Önnur söguleg skáldsaga um eitthvað trúarlegt. Spennandi bók.
    ****
  • Dan Burstein og Arne De Keijzer: The secrets of Maria Magdalena
    Ótrúlega fróðleg bók. Les allt sem ég kemst yfir um Maríu Magdalenu.
    *****
  • Scott Lynch: The Lies of Locke Lamora
    Frábærar bækur um meistarþjófinn Locke og kumpána hans. Bók nr. 2 heitir Red Seas under Red Skies.
  • Naomi Novik: His Majestys Dragon
    Sería um drekann Temeraire. Búin að lesa nr 2 og 3 einnig, er að bíða eftir að nr. 4 komi í kilju.
    *****
  • Roderick Gordon & Brian Williams: TUNNELS
    Einnig bók um heim sem ekki er til.
    ****
  • Steve Berry: The Templar Legacy
    Les mikið af svona bókum, skáldsögur sem eiga sér stað í sögulegum raunveruleika.
    ****
  • China Miewille: UNLUNDON
    Frábær um aðra London í samsíða vídd við hina.
    ****
  • Neil Gaiman: Neverwhere
    Allir að lesa þessa bók.
    *****
  • Neil Gaiman: Stardust
    Hafði lesið bókina áður en myndin kom. Elska bækurnar hans.
    ****

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband